Af hverju er RÚV á samfélagsmiðlum?
Fjölmiðlar þurfa að vera þar sem fólkið er, hvort sem þeir eru í eigu ríkisins eða ekki. Fjölmiðlaneysla er að breytast hratt og ein af leiðunum til að halda í við breytingarnar er að læra hvernig fólk notar samfélagsmiðla og koma efninu á framfæri þar. Þetta vita til dæmis ríkismiðlarnir á hinum norðurlöndunum, sem leggja gríðarlega mikið púður í samfélagsmiðla.
Síðast þegar ég vissi var um 80 prósent þjóðarinnar á Facebook. Það er því augljóslega mikilvægt fyrir fjölmiðla að nýta þessa dreifileið til að koma efni á framfæri, eiga í samskiptum við fólk, hlusta og jafnvel bregðast við.
Við erum rétt að byrja
Ég hafði lengi látið mig dreyma um að taka við samfélagsmiðlunum hjá stóru fjölmiðlafyrirtæki; að fá tækifæri til að nýta samspil miðlana til að koma efninu á framfæri á þessum krefjandi tímum og reyna að nota samfélagsmiðla til að auka notkun og jafnvel traust. Nú er ár síðan ég hóf störf á RÚV og mig langar til að fara aðeins yfir árangurinn, þó það sé kannski ekki tímabært þar sem ég vil meina að við séum rétt að byrja.
Fyrir ári síðan voru fylgjendur aðalsíðu RÚV á Facebook rúmlega 26 þúsund. Í dag nálgast þeir 44 þúsund og þessi hraði vöxtur sýnir fyrst og fremst fram á tvennt: RÚV átti mikið inni á samfélagsmiðlum (og á reyndar enn) og það leysist mikill kraftur úr læðingi þegar hugað er sérstaklega að framsetningu, tímasetningu og stöðugleika í birtingu á efni.
Það er miklu líklegra að fólk deili, læki eða kommenti á strategically (sorrí, ég fann ekki íslenskt orð) framsett efni sem birtist reglulega á tíma sem hentar því. Þá er einnig líklegra að efnið dreifist út fyrir hópinn sem hefur þegar líkað við síðuna og þá lætur fólk í mörgum tilfellum slag standa og byrjar að fylgja viðkomandi síðu á Facebook. Þannig eykst dreifingin (reach) hægt og bítandi ég leggst glaður á koddann á kvöldin.
Þetta eru nánast vísindi.
Og þetta hefur gengið mjög vel. Fólk horfði á 4.5 milljónir mínútur af efni á aðalsíðu RÚV á Facebook á síðasta ári, það er tæplega 300 prósent meira en árið á undan. Áhorfin voru 8,6 milljónir, um 312 prósent meira en árið á undan og viðbrögðin ruku líka upp um tæp 300 prósent 🚀
En hvað segja þessar tölur okkur?
Ásamt því að breyta hvernig við birtum efnið þá birtum fleiri myndbönd. Myndbönd eru vinsælasta efnið á Facebook og ekki nóg með það; Facebook vill að myndbönd dreifist vel eftir Mark Zuckerberg og félagar kynntu Facebook Watch og ákváðu þar með að dýfa tánni í tjörnina, eða öllu heldur uppistöðulónið sem hefur myndast með tilkomu Youtube.
Það þýðir samt alls ekki öll myndbönd dreifist vel á Facebook — maður þarf enn þá að beita öllum brögðum til að sækja áhorf. En fólk hefur sem betur fer verið til í að horfa á efnið sem við birtum á Facebook; það segir sína sögu að af 50 vinsælustu myndböndum RÚV á Facebook frá upphafi voru eiginlega öll birt síðastliðna tólf mánuði — og meirihluti hinna eru frá því að Hatari tók þátt í Eurovision. Ég bölva því daglega að Daði Freyr hafi ekki fengið að spreyta sig í keppninni því hann hefði tekið allar þessar tölur og reykt þær. Fjandinn hafi þig, COVID!
Loks er líka gaman að sjá að fólki er ekki sama. Komment, læk og deilingar hrúgast inn — mest jákvæð en líka neikvæð og þannig á það að vera. Fólk lætur í sér heyra ef því mislíkar eitthvað og sparar ekki ástina ef það kann að meta efnið.
Vonandi finnst þér þetta eins fróðlegt og mér. Hafðu samt í huga að ég tók aðeins fyrir aðalsíðu RÚV á Facebook. Við rekum einnig fullt af öðrum síðum, Instagram og fleira sem gaman væri að rýna í seinna.
En eins og ég segi, við erum rétt að byrja og það má gera miklu betur. Ég er t.d. enn með krónískan hausverk yfir allskonar tegundum af efni sem ég hef ekki enn fundið út úr hvernig er best að miðla. Verkefnið er krefjandi og ég vona bara að færslan á næsta ári jafn jákvæð.