Augljóst brot á siðareglum RÚV

Atli Fannar Bjarkason
2 min readApr 21, 2021

Sem áhugamaður um matargerð hef ég fylgst með fyrirtækjum, stofnunum og neytendum bregðast í einu ótrúlegasta fréttamáli samtímans: Þegar Cocoa Puffs var nánast fyrirvaralaust tekið úr hillum verslana vegna þess að það inniheldur „við­bætt­ nátt­úr­u­leg­t lit­ar­efn­i sem sam­ræm­ist ekki lög­gjöf sem gild­ir á Evr­ópsk­­­a efn­­a­h­­ags­­­svæð­­­in­­­u.“

Eins og gengur og gerist þegar svínað er á almenningi á Íslandi virðist enginn geta tekið ábyrgð í málinu. Heildsalinn bendir á ESB, ESB bendir á framleiðandann og framleiðandinn veltir fyrir sér hvort Ísland sé land eða bær Norður-Karólínu.

Allir aðilar þessa máls hafa brugðist í að segja okkur nákvæmlega hvaða efni þetta er sem fólk má ekki borða og hvers vegna. Erum við búin að vera borða eitthvað rottueitur? Eða er þetta efni og meint skaðsemi þess á pari við saklausan hvítan sykur sem löggjafinn hvetur okkur til að dæla ofan í börnin í gegnum mjólkurvörur, undir því yfirskini að þær gefi kraft ásamt því að styrkja tennur og bein?

Cocoa Puffs er hornsteinn í matarmenningu heillar kynslóðar. Kynslóðirnar sem komu á undan suðu hesta og báru dýrafóður á borð á jólunum og kölluðu það „grænar baunir“. Við heltum þessum lífsstílssjúkdómskúlum í skál og kölluðum það „mikilvægustu máltíð dagsins“.

Ekki taka það frá okkur.

Að minnsta kosti ekki án þess að segja okkur hvort við séum búin að borða asbest í þrjátíu ár eða matarlit sem veldur í mesta lagi fjörfiski, vægum kláða og svima.

Höfundur gerist hér brotlegur við siðareglur starfsfólks RÚV með því að taka opinberlega afstöðu í umræðu um umdeilt mál í þjóðfélagsumræðunni.

--

--