Eitt um umræðuna um ensku landsliðsstrákana á hótelinu

Atli Fannar Bjarkason
2 min readSep 10, 2020

Þegar samfélagsmiðlar keyra áfram umdeild mál stígur yfirleitt fram fólk sem er mjög hissa á öllu saman og segist ekki hafa séð neinn tala illa um neinn. Sama fólk segist oftar en ekki bara hafa séð fólk taka upp hanskann fyrir þau sem hafa orðið fyrir áreitinu. Sumir eru raunverulega hissa á meðan aðrir nota þessi rök til að gera lítið úr upplifun þeirra sem fá yfir sig gusurnar og undirbyggja þá bjargföstu trú að það hafi enginn sagt neitt slæmt; allt sé þetta stormur í vatnsglasi.

Hóparnir tveir eiga sameiginlegt að vita ekki alveg hvernig samfélagsmiðlar virka. Þeir vita ekki að frá því að þeir byrjuðu að nota Facebook, þá hóf miðillinn að safna saman gögnum sem segja með mikilli nákvæmni til um hvers konar manneskjur þau eru; skoðanir, áhugamál, fjölskylduhagir, kynhneigð — allt sem gerir þau að þeim er geymt á hörðum diski í gagnaveri í einhverju landi þar sem Mark Zuckerberg þarf ekki að borga skatta. Þessi gögn notar hann til að raða í kringum þau skoðanasystkinum og þannig verða til hinir margumtöluðu bergmálsklefar þar sem fólk skiptist á skoðunum um mál sem það er sammála um.

Ef þú ert til dæmis sammála mér og mörgum öðrum um að stelpurnar sem kíktu í heimsókn á hótelið hafi ekki gert neitt rangt, þá er mjög líklegt að fólkið sem þú sérð tjá sig á veggnum þínum á Facebook sé sammála. Allt sem þú hefur gert á Facebook í gegnum tíðina hefur nefnilega minnkað bergmálsklefann þinn og í dag er hann orðinn svo lítill og einsleitur að þú sérð nánast bara ummæli frá fólki sem er sammála þér. Á þessu eru að sjálfsögðu undantekningar — ekki senda mér skilaboð um að þú hafir einu sinni séð einhvern segja eitthvað sem þú varst svo ósammála að þú titraðir af reiði.

Þannig að. Þau sem segja furðu lostin frá því að þau hafi ekki séð neinn hneykslast á þessum stelpum eru í raun og veru að afhjúpa vanþekkingu sína á samfélagsmiðlum. Og það er líka bara mjög skiljanlegt — ég vinn við samfélagsmiðla og skil ekkert í þeim.

--

--