Fjórir hlutir sem ég hef lært eftir níu mánuði sem samfélagsmiðlastjóri RÚV

Atli Fannar Bjarkason
3 min readMay 26, 2020

Fyrstu níu mánuðirnir í starfi mínu sem verkefnastjóri vefútgáfu og samfélagsmiðla á RÚV hafa kennt mér ýmislegt. Rennum yfir nokkur atriði um dreifingu efnis á samfélagsmiðlum og ég segi svo kannski seinna hvað ég hef lært um ástina, lífið og svefn ungbarna.

1. Lífræn dreifing er ekki hluti af fortíðinni

Þau sem vinna við að koma efni á framfæri á samfélagsmiðlum þurfa reglulega að aðlagast breyttum veruleika. Algrímið á Facebook getur breyst með skömmum fyrirvara og allt í einu er það sem virkaði í síðasta mánuði hætt að virka jafn vel og áður. Facebook segist gera þetta til að bæta upplifun notenda sinna, sem er að hluta til rétt; efni sem fólk bregst við með lækum, deilingum og kommentum er gert hátt undir höfði með mikilli útbreiðslu. Lokatakmark miðilsins er samt að sjá til þess að greitt sé fyrir dreifingu á efni.

Það er snúið að dreifa efni frá fyrirtækjum á miðli sem vill helst að allt efni sé „persónulegt“. Það þarf að beita ýmsum brögðum til að ná góðri útbreiðslu, jafnvel þótt greitt er fyrir dreifinguna. Á tímabili hélt ég að lífræn dreifing (organic reach) væri hluti af fortíðinni og að ég yrði fljótur að rekast á vegg þegar kæmi að því að dreifa efni Ríkisútvarpsins á samfélagsmiðlum, þó það sé að vísu auðveldara að dreifa efni frá fjölmiðlum en öðrum fyrirtækjum. Góð dreifing er hins vegar aldrei sjálfgefin og breytingar á efnisvali, framsetningu, tímasetningu og tíðni birtinga hefur haft vægast sagt góð áhrif á útbreiðsluna.

2. Samfélagsmiðlar elska línulega dagskrá

Samspil ólíkra miðla er ótrúlega skemmtilegt viðfangsefni. Eitt af því sem er áhugavert að fylgjast með er hvernig línuleg dagskrá og dreifing á samfélagsmiðlum vinna saman.

Sjónvarpið býr til öldur sem samfélagsmiðlar sörfa með viðeigandi efni og ég er ekki að ýkja þegar ég segi að samfélagsmiðlar elski línulega dagskrá — ég fylgist hugfanginn með áhrifum miðlanna á hvorn annan á hverjum degi. Ástin er svo heit að vinsælasta efnið á Netflix í dag, þættirnir um hinsta dans Michael Jordan með Chicago Bulls, eru eiginlega í línulegri dagskrá; tveir þættir duttu inn á streymisveituna á viku. Þannig gat Netflix stýrt viðbrögðunum á samfélagsmiðlum t.d. með því að teygja á þeim yfir fimm vikna tímabil.

3. Framsetning skiptir mjög, mjög miklu máli

Ég vissi þetta reyndar en það er ekki hægt að segja þetta nógu oft. Efni á samfélagsmiðlum þarf að líta öðruvísi út en t.d. efni í sjónvarpi. Stærðarhlutföll, texti, klipping, tónn; ef efnið var ætlað öðrum miðli í upphafi þarf að hugsa það upp á nýtt til að hámarka líkur á góðri útbreiðslu á samfélagsmiðlun.

Það er ærið verkefni þar sem samkeppnin um athyglina er gríðarleg og notendur samfélagsmiðla er miskunnarlausir, til dæmis þegar kemur að því að horfa á myndbönd lengur en í nokkrar sekúndur.

4. Algrímið verðlaunar stöðugleika

Þetta vissi ég líka en þessi listi gat ekki verið bara þrjú atriði. Til að ganga í augun á algríminu og fjölga fylgjendum er mikilvægt að bjóða stöðugt upp á efni sem fólk hefur áhuga á. Þetta er ekki vandamál á RÚV sem framleiðir mikið af góðu efni.

Markmiðið frá upphafi var að fjölga fylgjendum á samfélagsmiðlum. Eitt af því sem var gert var að gefa fleiri þáttum hátt undir höfði á samfélagsmiðlum og á síðustu mánuðum hefur fylgjendum fjölgað um rúmlega 57 prósent. Þetta hefði ekki verið hægt án þess að birta reglulega áhugavert efni sem dreifist út fyrir hópinn sem fylgir RÚV nú þegar.

Öðruvísi fjölgar fylgjendum ekki — enda alls ekki í boði að starta leik og gefa iPhone.

Tengist ekki þessum pistli en ég var að setja saman póstlista og sendi á hann hressandi útskýringar á allskonar málum ásamt nokkrum frískandi molum fyrir hádegi á fimmtudögum. Ég kalla þetta Nú skil ég og þú getur skráð þig hér.

--

--