Kórónukeppnin

Atli Fannar Bjarkason
6 min readApr 8, 2020

Kannski er ég búinn að vera of lengi í sjálfskipaðri sóttkví en stundum líður mér eins og sérfræðingarnir á samfélagsmiðlum séu í einhvers konar keppni í að finna landið sem er best í að stöðva kórónuveiruna. Fyrirmyndarríkin eru orðin svo mörg að kappsamasta fólkið virðast skiptast á að snúa hnattlíkani, stoppa það með puttanum og taka dæmi um hvernig landið sem puttinn lendir á er að gera þetta allt öðruvísi og miklu betur en allir aðrir í veröldinni.

Að skoða hvernig þjóðir heimsins tækla óværuna getur verið mjög fróðlegt en það er líka þreytandi að lesa í hverri viku að nú þurfi að breyta um stefnu og gera allt eins og einhver annar. Það er nefnilega rosalega auðvelt að fara á internetið og finna ríki sem gera þetta betur en allir aðrir — Ísland hefur meira að segja skotið upp kollinum í slíkum umfjöllunum en ég ætla hvorki að reyna að sannfæra sjálfan mig né aðra um að við séum best í heimi í veiruvörnum (enda vita allir að þar standa Færeyingar fremstir).

Fyrirmyndarríkin (og Svíþjóð)

Kórónukeppnin hefur staðið yfir í rúman mánuð. Í fyrstu horfðu allir til Kína en í dag eru uppi efasemdir um hvort opinberar tölur sem berast þaðan eigi við rök að styðjast. Þá óttast kínversk stjórnvöld að veiran gæti farið aftur af stað, nú þegar byrjað er að slaka á ströngum takmörkunum.

Svo var bent á önnur ríki í Asíu sem hafa náð eftirtektarverðum árangri í að snúa veiruna niður: Sjáið bara Suður-Kóreu (sem náði tökum á útbreiðslunni án þess að beita hörðum samkomubönnum), Singapúr (sem lokaði ekki skólum en hyggst loka þeim í vikunni) og Tævan (sem lenti illa í SARS-faraldrinum árið 2003 og hefur eytt síðustu árum í að byggja upp innviði til að bregðast við veirufaraldri). Þessi ríki eiga reyndar öll sameiginlegt að ganga mjög langt í að skima, rekja smit, einangra sjúka og setja í sóttkví. Sem hljómar kunnuglega.

Fleiri fyrirmyndarríki hafa verið nefnd til sögunnar; Noregur, Ástralía, meira að segja Danmörk en í þessum löndum virðist veiran vera á svipuðu róli og hérlendis ef tölurnar eru skoðaðar (ég kann samt ekki að túlka þær, þannig að þið skulið frekar taka mark á einhverjum öðrum).

Loks snýst stór hluti af kórónukeppninni um að bera aðgerðirnar hér á landi saman við aðgerðirnar í Svíþjóð, þar sem stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi. Sem dæmi um muninn á umfangi aðgerðanna, þá hafa tæplega fjögur þúsund af hverjum millljón íbúum Svíþjóðar verið skimaðir fyrir veirunni en hér á landi eru um 82 þúsund skimanir á hverja milljón íbúa.

Avokadó-yfirlýsingar

Fyrrverandi þingmenn hafa verið áberandi í kórónukeppninni. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir fullyrðir á Facebook að síðustu vikur hafi aðallega náðst árangur við að ná upp almenningstrausti á sóttvarnarteyminu og Frosti Sigurjónsson hefur gagnrýnt stefnu sóttvarnarlæknis harðlega ásamt því að bjóða fram aðstoð sína í opnu bréfi til forsætisráðherra. Vangaveltur Frosta hafa hafa ratað í fjölmiðla og inn á daglegu upplýsingafundina í gegnum spurningar Björns Inga Hrafnssonar, ritstjóra Viljans.

En þegar allur heimurinn upplifir fordæmalausa tíma í sameiningu eru digurbarkalegar yfirlýsingar stundum eins og avokadó úr íslenskri matvöruverslun — þær standa fyrir sínu í svona tíu mínútur. Sem dæmi um það þá sagði Frosti í bréfinu sínu til forsætisráðherra að í lok mars myndu 250 til 500 Íslendingar að dvelja inn á spítala með COVID-19 (þegar þetta er skrifað stendur talan í 39).

Og þegar fyrstu fréttir bárust af landamæralokunum gagnrýndi Frosti að Ísland færi ekki sömu leið og Bandaríkin í þeim efnum. Í innblásinni færslu á Facebook vísaði hann í blaðamannafund þar sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fullyrti að takmarkanir á komum ferðamanna frá sýktum svæðum hafi skilað mikilvægum árangri í að tefja og draga úr fjölda smitaðra í Bandaríkjunum. „Sá tími hefur nýst vel til undirbúnings og telja þeir að Bandaríkin séu nú best undirbúin af öllum löndum,“ sagði Frosti.

Þetta var í lok febrúar en í byrjun mars var búið að greina þrjú smit á Íslandi. Þá var ljóst að íslensk stjórnvöld ætluðu að minnsta kosti ekki strax að hindra komu ferðamanna til landsins og Frosti sagði þá ákvörðun fullkomlega órökrétta og vísaði í árangur Bandaríkjamanna, þar sem smitin voru aðeins 76:

„Kannski skipti einhverju máli að stjórnvöld í Bandaríkjunum gripu til markvissra aðgerða til að draga úr komu covid sýktra ferðamanna þangað til lands.“

Kannski ekki, Frosti.

Mánuði síðar var búið að greina rúmlega 244 þúsund smit í Bandaríkjunum og í dag hlýtur að vera ljóst að þessar markvissu aðgerðir komu að minnsta kosti ekki í veg fyrir óhugnanlega útbreiðslu veirunnar þar í landi. Höfum á hreinu að ég er ekki að leggja mat á hvort landamæralokanir virki eða ekki. Ég hef hvorki þekkingu né forsendur til að meta það.

Sófasérfræðingurinn Bill Gates

Frosta gengur eflaust gott eitt til en sem fíkill í upplýsingar og fréttir um veiruna hef ég tekið eftir því að hann notar í besta falli frjálslegar aðferðir við að laga upplýsingar og umfjöllun fjölmiðla að málflutningi sínum.

Dæmi um það er hvernig hann túlkaði svör Bill Gates við spurningum notenda Reddit um kórónuveiruna, í færslu á Facebook-síðu sinni. Sigri hrósandi vísaði Frosti í umfjöllun um svörin og notaði eigin skilgreiningu á hugtakinu „shut down“ til að fullyrða að Gates vildi ekki „reyna að fletja út kúrfuna“.

Ég las svör Bill Gates á umræddum þræði og hann segir ekkert slíkt. Hann er einu sinni spurður út í sviðsmyndir sem snúast meðal annars um að fletja út kúrfuna og svarar að „sem betur fer“ séu forsendurnar fyrir mannfalli í Bandaríkjunum í slíkum sviðsmyndum of neikvæðar. Gates talar annars mjög varlega, segir að hægt sé að ná góðum árangri með skimunum og „social distancing“ en þykist þó ekki vera með öll réttu svörin. Nú þegar ástandið er farið í skrúfuna í Bandaríkjunum hefur Gates birt grein á vef Washington Post þar sem hann leggur meðal annars til harðari samkomu- og útgöngubönn þar í landi ásamt því að ríkin skimi miklu fleiri.

Frosti lauk færslu sinni á að bjóða Gates velkominn í hóp „sófasérfræðinga“ sem er í besta falli gott grín. Bill Gates hefur á síðustu árum eytt ótrúlegum fjárhæðum í rannsóknir á heimsfaröldrum í gegnum góðgerðarsamtök sín og Melindu, eiginkonu sinnar. Þá hefur hann fjallað um viðbrögð við slíkum faröldrum í The New England Journal of Medicine, sem er eitt virtasta vísindarit heims auk þess að hann varaði beinlínis við því að heimurinn væri ekki búinn undir heimsfaraldur í frægum TED-fyrirlestri fyrir fimm árum. Hann var meira að segja með tvo sérfræðinga á þessu sviði með sér (á fjarfundi) þegar hann sat fyrir svörum á Reddit.

En auðvitað lítur Frosti Sigurjónsson svo á að þeir standi jafnfætis í þessum málum.

Sápuþvegnar hendur almennings

Síðustu fimm vikur hef ég unnið heima og nánast bara farið út til að kaupa mat, skutla syni mínum á leikskólann annan hvern dag og viðra hann (og sjálfan mig) hina dagana. Hann verður þriggja ára í júlí og það er erfitt að sjá hvað honum finnst sárt að geta ekki hitt ömmur sínar og afa, sem koma þó reglulega í heimsókn með hjálp tækninnar. Við erum öll saman í þessum rússibana, hvort sem við tökum þátt í kórónukeppninni eða ekki. Við gleðjumst þegar smitum fækkar og efumst um allt þegar þeim fjölgar. Það er hins vegar ekki annað hægt en að dást að fólkinu í framlínunni sem leggur nótt sem nýtan dag við að lækna, hjúkra, skima, greina og allt hitt sem virðist að minnsta kosti vera að hægja á útbreiðslu veirunnar og sjá til þess að heilbrigðiskerfið hafi undan.

Eftir því sem ég les meira um alþjóðlegar aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar þá veit ég minna. Hvergi eru aðferðirnar eins. Árangurinn er samt alls staðar bókstaflega í sápuþvegnum höndum almennings og það væri glatað ef sumarbústaðaþorsti Íslendinga í páskafríi myndi núlla út það sem áunnist hefur síðustu vikur. Tökum þessa frasa alvarlega. Verum heima, hlýðum Víði og ferðumst innanhúss um páskana — stofur landsmanna eru virkilega fallegar á þessum árstíma.

Og munum að þetta er ekki rétti tíminn til að fá sér tígrisdýr.

--

--